Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið verður aðili að Gleipni

6. apríl 2023

Nýverið var gengið frá aðkomu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins að Gleipni – nýsköpunar- og þróunarsetri á Vesturlandi.

Ráðuneytið bætist þar með í hóp öflugra stofnaðila setursins, það eru Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst, Landsvirkjun, Borgarbyggð, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Háskóli Íslands, Íslandsstofa, Orkustofnun, Breið-Þróunarfélag, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Símenntun á Vesturlandi, Hugheimar – frumkvöðla- og nýsköpunarsetur og Auðna tæknitorg.

Aðild ráðuneytisins mun gera Gleipni betur kleift að leggja sitt af mörkum til að skapa landbúnaði og matvælaframleiðslu samkeppnishæft umhverfi til að gera greininni kleift að standa enn betur undir því fjölþætta hlutverki sem hún gegnir í íslensku samfélagi, meðal annars við að skapa atvinnu og byggðafestu. Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar á Ísland að verða vagga nýrra lausna á grunni auðlinda, þekkingar og staðsetningar.

Ráðuneytið telur að samstarfsverkefnið Gleipnir geti komið að nýjum verkefnum sem ætlað er að draga úr losun sem og stuðla að kolefnishlutleysi, einkum tengdum landbúnaði og matvælaframleiðslu. Stofnaðilar Gleipnis fagna aðkomu ráðuneytisins sem gerir nýsköpunarsetrinu kleift að leiða og byggja upp samstarf stofnaðila, stjórnvalda og annarra hagaðila, efla nýsköpun og þróa tækifæri á sviði landbúnaðar, matvælaframleiðslu, sjálfbærni og loftslagsmála á Vesturlandi.