Gleipnir tók virkan þátt í opinberri heimsókn Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, til Noregs dagana 8.–10. apríl 2025. Heimsóknin var mikilvægur vettvangur fyrir Gleipni til að dýpka alþjóðleg tengsl og kanna möguleika á samstarfi við norsk fyrirtæki, háskóla og stofnanir á sviði sjálfbærrar þróunar og nýsköpunar – með sérstakri áherslu á umhjverfisvæna orku, kolefnisbindingu, fæðuöryggi og nýtingu auðlinda hafsins.
Ferðin var skipulögð af Íslandsstofu og Innovation Norway í samstarfi við Norska-íslenska viðskiptaráðið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Íslenska sjávarklasann og Green by Iceland. Þátttakendur komu úr fjölbreyttum greinum atvinnulífsins og kynntu áherslur sínar á sameiginlegum vettvangi. Fyrir Gleipni var þetta einstakt tækifæri til að efla tengslanet sitt, kynna nýsköpunarverkefni í þróun og kortleggja framtíðar samstarfsverkefni á milli Íslands og Noregs.
Þverfaglegar ráðstefnur og vettvangur fyrir tengslamyndun
Dagskráin hófst með ráðstefnu í BI Norwegian Business School í Osló þar sem rætt var um leiðtogahlutverk og ábyrgð í breytilegum heimi. Í kjölfarið var haldið grænt viðskiptaþing á vegum Innovation Norway þar sem tengslamyndun stóð í fyrirrúmi. Erindi og pallborðsumræður fjölluðu meðal annars um kolefnisföngun, orkunýtingu og orkuskipti – svið sem eru miðlæg í verkefnum Gleipnis tengdum framtíðarorku og kolefnishlutleysi í fæðuframleiðslu.
Í Þrándheimi tók Gleipnir þátt í viðskiptaþingi tileinkað bláa hagkerfinu þar sem kynntar voru lausnir í sjálfbærri fiskvinnslu, hringrásarhagkerfi og nýsköpun í fiskeldi. Þessi vettvangur var sérlega mikilvægur fyrir Gleipni í ljósi áherslu fyrirtækisins á þróun matvælakerfa sem nýta bæði land og sjó á vistvænan og tæknivæddan hátt.
Sterkari tengsl og ný sóknarfæri
Þátttaka Gleipnis í heimsókninni lagði grunn að samstarfi á sviði vindorkuþróunar, CO₂-bindingar, fæðuöryggis og lífhagkerfis og styrkti tengsl við lykilaðila í Noregi. Ferðin skapaði ný tækifæri til að tengja íslenskt nýsköpunarumhverfi við sterkan norskan iðnað og rannsóknarumhverfi – með það að markmiði að móta sameiginleg verkefni sem styðja við sjálfbæran vöxt og alþjóðlega samkeppnishæfni beggja landa.
„Við fundum mikinn áhuga í Noregi á þeim hugmyndum sem við stöndum að – hvort sem það var vindorka á landsbyggðinni og í sjó, nýjar leiðir til kolefnisbindingar eða þróun öruggari og sjálfbærari fæðukerfa fyrir norðlægar slóðir,“ segir Alexander Schepsky, framkvæmdastjóri hjá Gleipni. „Við komum heim með fjölda nýrra tengsla og hugmynda sem við munum vinna áfram í samstarfi við bæði íslenska og norska aðila.“